FYRR VAR OFT Í KOTI KÁTT…TIL SÖLU!

  Hlíðarendakot í Fljótshlíð er til sölu, bærinn þar sem listaskáldið Þorsteinn Erlingsson orti “Fyrr var oft í koti kátt, krakkar léku saman…”

  Gamli bærinn.

  Jörðin er um 400 hektarar, ægifagur útsýni til Vestmannaeyja og Eyjafjalla og fagrir fossar falla allt um kring. Á jörðinni er 152 fermetra íbúðarhús, átján ára gamalt og 411 fermetra skemma, lítið eldri, sem hentað gæti vel sem “dótkassi” fyrir auðmann sem vildi kaupa.

  Nýi bærinn.

  – Hvað kostar þetta?

  “Tæpar 150 milljónir,” segir Sveinbjörn Sveinbjörnsson lögmaður og fasteignasali hjá Eignaborg.

  Stytta af skáldinu er á staðnum.

  Í Hlíðarendakoti eftir Þorstein Erlingsson er eitt þekktasta kvæði íslenskrar ljóðmenningar og það eitt og sér ætti að gera jörðina enn verðmætara.

  – Ljóðið eitt ætti að hækka verðið um 70 milljónir?

  “Það finnst mér,” segir Sveinbjörn fasteignasali.

  Í Hlíðarendakoti eftir Þorstein Erlingsson (1858 -1914)

  Fyrr var oft í koti kátt,
  krakkar léku saman,
  þar var löngum hlegið hátt,
  hent að mörgu gaman.
  Úti um stéttar urðu þar
  einatt skrítnar sögur,
  þegar saman safnast var
  sumarkvöldin fögur.

  Eins við brugðum okkur þá
  oft á milli bæja
  til að kankast eitthvað á
  eða til að hlæja.
  Margt eitt kvöld og margan dag
  máttum við í næði
  æfa saman eitthvert lag
  eða syngja kvæði.

  Bænum mínum heima hjá
  Hlíðar brekkum undir
  er svo margt að minnast á,
  margar glaðar stundir.
  Því vill hvarfla hugurinn,
  heillavinir góðir,
  heim í gamla hópinn minn,
  heim á fornar slóðir.

  Auglýsing