FULLT AF FÍNUM VEITINGASTÖÐUM Í EYJUM

    Wang Shong Yi yfirkokkur á Canton í Eyjum og Wenyi Zeng með loðnuna. Atli Rúnar a milli þeirra í sjöunda himni með matinn.

    “Steikt loðna í hádegismat í dag! Það klikkar ekkert sem kínversku kokkarnir á veitingastaðnum Canton í Vestmannaeyjum matreiða. Wenyi Zeng steikti einfaldlega hrygnur og hængi í smjörlíki, stráði örlitlu af sykri yfir og kryddaði,” segir Atli Rúnar Halldórsson fyrrverandi fréttamaður og nú almanatengill:

    “Hrygnan var enn betri en hængurinn, hrognafyllingin jók við bragðupplifunina. Mér finnst alltaf vanta eitthvað í tilveruna í Eyjaferð ef ég næ ekki að borða á Canton. Yfirkokkurinn Wang Shong Yi er töfrakarl í eldhúsinu og fer sjaldan troðnar slóðir. Ég hef fengið úr eldhúsinu frá honum fisk eldaðan og framreiddan á ótal vegu, sæbjúgu, þorskhausa, gellur, humar og rækju. Já og meira að segja kínverska sviðaveislu, það er að segja svið sem meistari Wang matreiddi á sinn hátt. Það er hreinlega þess virði fyrir matgæðinga á meginlandinu að skreppa til Eyja til að borða þarna. Alveg satt. Og svo geta gestirnir verið dögum saman og borðað líka á Einsa kalda, Gott, í Slippnum og svo framvegis. Það er nefnilega ekki nokkur skortur á fínum veitingastöðum í Eyjum.”

    Auglýsing