FRÆNDUR BJARNA KÆRA

    Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála hefur borist kæra frá eigendum Selskarðs þar sem þeir kæra framkvæmdaleyfi Landsnets og fara fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar. Úrskurðarnefndin hefur óskað eftir gögnum frá Garðabæ og gaf bænum frest til 9.janúar til að tjá sig um kæruna.

    Framkvæmdaleyfið var gefið út af Garðabæ þann 7.desember fyrir Lyklafellslínu sem er í lögsögu Garðabæjar. Með framkvæmdaleyfinu er ætlunin að veita leyfi til framkvæmda við Lyklafellslínu yfir eignaland jarðarinnar Selskarðs án þess að eigendur jarðarinnar séu nokkuð hafðir í ráðum um framkvæmdir á eign sinni. Selskarðsjörðin er í dag lítil og rýr. Einu nytjarnar af henni voru taldar dúntekja. Landið er í rauninni bara fjöru-ræma og smávegis partur sem hangir upp við Gálgahraun að austanverðu og Garðaholt sunnanmegin.

    Eftir því sem næst er komist er jörðin meira og minna ónothæf fyrir íbúðabyggð, vegna þess hve lágt hún liggur. Til þess að gera jörðina byggingarhæfa, þyrfti meiriháttar jarðvegsflutninga til að hækka landið til þess að fullnægja byggingareglugerðum.

    Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sat í skipulagsnefnd Garðabæjar frá 2003 til 2007, en faðir Bjarna og frændi eru meðal eigenda Selskarðs. DV greindi frá því fyrir nokkru að Bjarni hafi ekki ávallt vikið af fundum nefndarinnar þegar málefni tengd jörðinni voru rædd, eins og fulltrúar Garðabæjar höfðu áður fullyrt. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar segir við DV að fram til ársins 2006 hafi Bjarni ekki vitað af þvi að landið væri að hluta í eigu fjölskyldu sinnar. Eftir að á það var bent árið 2006 hafi hann ætíð vikið af fundum þar sem málefni jarðarinnar voru rædd.

    Auglýsing