FLÓTTAMANNASYSTEM ÍSLENSKRAR ÞJÓÐMENNINGAR

  Róbert og "hættulegi" kirkjugesturinn undan ströndum Reykjavíkur.
  Róbert Björnsson verkfræðingur hjá Cargolux sendir athugasemd:

  Átjánda september sendir Steini pípari svokallað myndskeyti til birtingar á eirikurjonsson.is undir fyrirsögninni “Auglýst eftir flóttamannasystemi”.

  Inntak greinarinnar er réttlæting á harðri innflytjendastefnu og nauðsyn þess að hafa “system á hlutunum” til þess að sporna gegn því að svo margir múslimar flytjist til landsins að þeir fái jafnvel rödd í stjórnmálum og yfirgnæfi “okkar gildi”. Meðfylgjandi pistlinum er ljósmynd af Búrfellskirkju í Grímsnesi sem Steini pípari nefnir einfaldlega “Íslensk þjóðmenning”.

  Ástæða þess að ég hnaut um þennan pistil var einmitt myndin af Búrfellskirkju, snoturri sveitakirkju reistri árið 1845. Ég hef nefnilega sterka tengingu við þessa ágætu kirkju enda fékk ég að njóta “íslenskrar þjóðmenningar” eins og hún gerðist bezt þarna á Búrfelli á mínum uppvaxtarárum. Amma mín, Kristín Guðjónsdóttir húsfreyja að Búrfelli, var trúrækin og þjóðrækin Sjálfstæðiskona og móðir mín, Dúna, sem var bæði fædd og grafin að Búrfelli var á sínum yngri árum organisti í Búrfellskirkju. Hún lýsti sér sjálf sem “íslenskari en sviðahaus” og því kannski ekki óeðlilegt að Steina þykji Búrfellskirkja táknmynd íslenskrar þjóðmenningar.

  Undanfarin ár hef ég búið í Þýskalandi en fyrir þremur árum síðan bauð ég góðum vini mínum í sumarfrí til Íslands og við gistum á ættaróðalinu að Búrfelli. Hann fór fögrum orðum um staðinn og kirkjuna sem ég sýndi honum eftir að hann spurði hikandi hvort að múslimar væru velkomnir þangað inn.

  Þessi ungi og hugrakki maður flúði Sýrland árið 2015 og fékk fyrir tilstilli Angelu Merkel að setjast að í þýskalandi hvar honum hefur hlotnast tækifæri til að byggja sér framtíð, stundað nám og er nú skattgreiðandi, hjálpsamur og duglegur borgari. Hann er altalandi á þýsku og er þakklátur fyrir að lifa í opnu og frjálslyndu samfélagi hvar hann getur lifað án ótta við ógnarstjórn harðstjóra og öfgatrúarleiðtoga. Hann hefur sömu vonir og þrár og allir jafnaldrar hans, hvort sem þeir eru íslenskir, þýskir eða arabískir. Hann hefur sína barnatrú og menningarlegt uppeldi en þrátt fyrir það kallar hann mig, samkynhneigðan trúleysingjann, bróður sinn.

  Eitt veit ég fyrir víst – ef þessi drengur hefði verið gestkomandi hjá ömmu minni á Búrfelli og lögreglan væri á eftir honum því það ætti að vísa honum úr landi fyrir að vera “hættulegur” múslimi og arabi – þá hefði amma mín falið hann og verndað og bakað handa honum tvíbyttnu með rabarbarasultu. Svo mikið veit ég því þannig voru hennar gildi.

  Ef gildi ömmu minnar eru þau sömu “kristnu gildi” og “íslenska þjóðmenning” og Steini pípari vitnar til – þá getum við verið sammála um að þau beri að vernda.

  Auglýsing