FJÖLDI SJÁLFSVÍGA EKKI BREYST Í ÁRATUGI

  “Sjálfsvíg – þetta hefur ekkert breyst í áratugi. Hér eru nokkrar staðreyndir,” segir Páll Þórðarson prófessor við háskólann í Sidney í Ástralíu:

  “Tíðni sjálfsvíga á Íslandi hefur ekki breyst stórvægilega í marga áratugi. Amk síðan 1950 er tíðnin búin að vera milli ca 8-15 per 100þús íbúa, oftast í kringum 12-14 / 100þús.

  Tíðnin á Íslandi virðist vera heldur lægri en í Finnlandi og Svíþjóð en heldur hærri en í Danmörku og Noregi.

  Á heimsmælikvarða virðist Ísland vera heldur fyrir ofan miðju þegar kemur að tíðni sjálfvíga en stendur þó ekkert sérstaklega út úr. Ísland er merkilega svipað Ástralíu, þar sem ég þekki mjög vel til, þegar tölurnar eru skoðaðar.

  Það sem meira, staða Íslands miðað við önnur lönd hefur ekkert breyst að því að virðist í marga áratugi.

  Eitt og eitt ár er öðruvísi. T.d. voru 50 sjálfsvíg (17.9/100þús íbúa) árið 2000 en 27 árið 2011 (8.5/100þús). Tölurnar sem ég fann ná til 2015. Fréttir sem ég fann benda til að 2016 og 2017 hafi ekkert verið sérstaklega öðruvísi. Hugsanlega verður 2018 öðruvísi en í ljósi sögunnar væri það ekkert endilega merki um varanlegar breytingar.

  Aukin umræða o.s.frv. um jafnrétti hefur ekki haft nein áhrif. Þ.e. “dólgafeminismi” ef hann hefur aukist síðustu áratugi hefur ekkert haft að segja. Meiri áhersla á “karlmennsku” í gamla daga gerði hlutina hvorki verri né betri en þeir eru núna.

  Hið svokallað hrun (svo maður noti orð DO) virðist ekki hafa haft nein áhrif á tíðni sjálfsvíga.

  Með öðrum orðum – þessi hræðilegi vágestur í samfélaginu virðist ekkert hafa haggast að ráði þrátt fyrir gríðarlegar samfélagsbreytingar síðustu 50-70 árin.

  Þetta þýðir ekki endilega að forvarnarstarf síðustu áratugi hafi verið gagnlaust – alveg hugsanlegt að án þess hefði hlutirnir versnað / verið verri. Í mínum huga er þetta eins og með umferðarslysin – það þýðir ekki að líta á þetta sem sjálfgefin hlut – ef við rýnum nógu vel í hlutina þá sé hugsanlega hægt að læra af því sem hefur gerst og reyna að fyrirbyggja þannig dauðsföll í framtíðinni.

  Og þó að það takist bara einstöku sinnum er hvert það mannslíf sem hægt er að bjarga með forvarnarstarfi ómetanlegt.

  Ég bæti því svo við að ég ólst upp á Austurlandi. Á níunda / upphafs tíunda áratugs síðustu aldar gekk þar yfir hrikaleg bylgja sjálfsvíga. Ég var svo lánsamur að ég missti engan mjög nákominn mér en hinsvegar snertu þessir voðalegu atburðir mig töluvert eins og nánast alla Austfirðinga þar sem maður þekkti þó nokkur af þeim sem dóu, annað hvort úr heimabyggð eða í gegnum skóla (í mínu tilfelli ME).

  Af öllu því hræðilega sem tengist sjálfvígum eru þessar “bylgjuhreyfingar” eitt af því verra.

  Svo gerðist það víst 1991 að “bylgjan” náði suður og nokkur ungmenni á svipuðu reki dóu þar. Einhverja hluta vegna ýtti þetta við samfélaginu.”

  Auglýsing