ENGINN STRÆTÓ EFTIR ÁRAMÓT?

  Dreifbýlispóstur:

  Almenningssamgöngur norður, suður og vestur eru í algerri óvissu eftir að samningur Vegagerðarinnar og samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi, Suðurlandi og Vesturlandi rennur út um áramótin.

  Sveitarfélögin vilja að ríkið borgi upp tap fyrri ára en ríkið er aðeins tilbúið að semja til eins árs  og endurskipuleggja  reksturinn á  leiðunum eftir árið en enn hefur ekki komið loforð frá ríkinu um að borga upp tap sveitarfélaganna sem hafa rekið Strætó á Norðurlandi, Vesturlandi  og Suðurlandi samkvæmt samningi frá  árinu 2012 með misjöfnum árangri.

  Málið var tekið fyrir á stjórnarfundi Eyþings í síðustu viku og þar kom fram  að fundað hefur verið með Vegagerðinni en staðfesting frá stjórnvöldum, um aukið fé til rekstrar og vilyrði um fjármagn vegna uppsafnaðra skulda, sem kallað var eftir með bréfi Eyþings í kjölfar bókunar stjórnar 27. júní sl., liggur ekki fyrir.

  Stjórnin ítrekar að fá þarf svör frá stjórnvöldum án frekari tafa og felur framkvæmdastjóra að senda bréf vegna málsins til samgönguráðherra og þingmanna kjördæmisins. Í júní kom fram að stjórn Eyþings telji sig ekki getað framlengt að svo stöddu samninga vegna almenningssamgangna nema að til komi staðfesting frá ríkisstjórn um aukið fjármagn til rekstrarins og gefið verði vilyrði fyrir fjármagni vegna uppsafnaðra skulda verkefnisins ásamt fyrirsjáanlegu  tapi 2018 og 2019.

  Auglýsing