ELDRI BORGARAR HLUSTA EKKI Á HARMONÍKU – OG HANANÚ!

    “Í morgun barst til mín í pósti myndskreyttur bæklingur, 16 blaðsíður, frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar með upplýsingum um þjónustu fyrir eldri borgara sem er góðra gjalda vert. Það fór hins vegar dálítið í taugarnar á mér, sem er að verða 75 ára, að í bæklingnum eru þrjár myndir – hvorki fleiri né færrri – af mönnum að spila á harmoníku,” segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, rithöfundur og einn gleggsti samfélagsrýnir sinnar kynslóðar. Og er ekki skemmt:

    “Það virðist vera alveg föst staðalmynd af eldri borgurum að þeir hafi óskaplega gaman af harmoníkutónlist sem ég held að hljóti að vera alrangt varðandi meirihluta eldri borgara nú til dags – þó að það kunni einhvern tíma að hafa verið staðreynd. Ég leyfi mér að benda á að þeir sem eru nú um áttrætt eru rokkkynslóðin. Elvis Presley og Little Richard voru þeirra ídól. Og við sem erum eilítið yngri af eldri borgurum, svona um sjötugt og þar yfir, ólumst upp við Bítlana, Rolling Stones og Bob Dylan. Við höfum bara ekkert sérstaklega gaman af gamaldags harmoníkuspili – því miður. Svo kann að vera að við höfum mestan áhuga á því sem er efst á baugi í tónlistinni núna – rétt eins og hverjir aðrir. Ég hlýt því að álykta að þarna séu fordómar gagnvart eldri borgurum vaðandi uppi. Og hananú.”

    Auglýsing