EKKERT PÍP

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Við búum við lýðræði það er svo sem almennt vitað. Við gagnrýnum stjórnmálamenn enda eru þeir mergir kosnir af fólki með allt aðra lífssýn en við. Þá óttumst við spillingu en hún þrífst í mun meira mæli í löndum sem búa við annað stjórnskipulag.

  Við höfum varnir gegn spillingunni, sem er fjórða valdið – fjölmiðlar. Þeir eru reknir af mönnum sem hugsa um það eitt að skila hagnaði. Raunveruleg rannsóknarblaðamennska er kostnaðarsöm og hentar það ekki fjárfestum að eyða peningi í slíkt þegar sögur af fræga fólkinu og ráðleggingar í kynlífi seljast betur.

  Við fáum það lýðræði sem við veljum m.a. með vali á lesefni. Ef almenningur hefur ekki áhuga á stjórnmálum og velferð landsmanna almennt þá fá þeir takmarkaðar upplýsingar til að byggja val sitt á og stjórn í samræmi við það. Lýðræðið krefst þátttöku og afstöðu.

  Hvað er það svo sem knýr mig til að skrifa um pólitísk málefni?

  Það skiptir mig máli hvernig haldið er á stjórn landsins vegna þess að landið og fólkið er mér kært. Með skrifum mínum þá reyni ég að benda á hófsamar og skynsamar leiðir eins og ég best þekki. Auðvitað hef ég ekki alltaf rétt fyrir mér. Ef hins vegar greinarnar vekja menn til umhugsunar, jafnvel þó hugur þeirra beini þeim í þver öfuga átt, þá gera greinarnar gagn. Þær virkja menn til þátttöku í samfélagsumræðunni.

  Auglýsing