ÉG HEITI TÓMAS…

  Ég heiti Tómas og ég er alkahólisti. Það hefi ég vitað alla götu frá því í janúar 1972 en þá var ég í Verzlunarskóla Íslands sem stóð við Grundarstíg, 22 ára gamall.

  Það var þannig að einu sinni á ári var svokallaður bindindisdagur. Á þeim degi var kynningá skaðsemi áfengis. Allir nemendur voru kallaðir saman i samkomusal skólans og það komu tveir menn að halda ræður. Við nemendurnir vorum alsæl að sleppa við að vera í tíma og áttum von á þessu venjulega sem bindindisfólk segir þegar það tjáir sig um brennivín. Fyrri ræðumaður var prestur, Sigurður Bjarmann, sem útskýrði þetta allt á mjög svo venjulegan hátt: Bla bla bla (ég er að færa í stílinn hvernig við heyrðum hann tala). En hinn maðurinn kom öllum að óvart. Hann byrjaði á því að segja: Komiði sæl, ég heiti Jóhannes og ég er alkahólisti.

  Það hefði mátt heyra saumnál detta. Á þessum tíma vissi nánasti enginn hvað alkahólismi var. Hann útskírði fyrir okkur hvernig hann hefði verið þegar hann var í Verzló og hvað tók við að námi lokknu hvað varðar drykkju. Mér fannst hann vera að lýsa mér. Ég var 4 árum eldri en hinir nemendurnir í 4. bekk og var farinn að drekka, stundum nokkra daga í röð og vera svo timbraður í marga daga á eftir. Ég var kominn með fjölskyldu en hagaði mér ekki sem slíkur. Hann sagði okkur að alkahólismi væri sjúkdómur sem var mikill léttir fyrir mig því ég var farinn að halda að eg væri kannski geðveikur.

  Þessi Jóhannes sagði okkur að sjúkdómseinkennin væru m.a. þau að fólk sem drykki kæmi sér í vandræði og yllu fjölskyldunni áhyggjum og kvöl. Þetta átti allt við mig en ég hélt samt áfram að drekka. En í hvert skipti sem var að renna af mér fór ég alltaf að hugsa um þennan Jóhannes.

  Svo var það í nóvember eftir langt fyllerí að ég hringdi í Jóhannes. Hann var kominn innan hálftíma, hjálpaði mér að láta renna af mér fór með mig á Heilsuverndarstöðina þar sem ég fékk vítamínsprautu og var hvattur til að borða þrúgusykur og drekka ávaxtasafa. Það rann af mér og ég var edrú eftir það í 3 vikur max.

  Það fennir fljótt í sportin þegar Bakkus er annars vegar. Auðvelt að gleyma kvölinni, maður man bara eftir gleðinni sem að, þegar litið er til baka, var nú ekki svo mikil.

  Núna hefi ég verið blessunarlega laus við áfengi og aðra vímugjafa í rétt tæp 40 ár. Það rann af mér daginn sem Vigdís var kosinn meiriháttar forseti í júní 1980.

  TOMMI SEGIR

  Pistill no.8 – Smellið!

  Pistill no.7 – Smellið!

  Pistill no.6 – Smellið!

  Pistill no.5 – Smellið!

  Pistill no.4 – Smellið!

  Pistill no.3 – Smellið!

  Pistill no.2 – Smellið!

  Pistill no.1 – Smellið!

  Auglýsing