ÉG HEITI EIRÍKUR, ÉG ER MEÐ COVID

  Vaknaði kófsveittur og kaldur með dynjandi hausverk eins og hjartað slægi inn í hauskúpunni, bullandi hita og gat í hvorugan fótinn stigið. Eins og jafnvægisskynið væri úr fasa. Þetta var að morgni sl. laugardags.

  Vissi strax að þetta væri Covid.

  Svaf allan laugardaginn í rennandi blautum rúmfötum og hitastig líkamans virtist sveiflast frá frosti í funa. Missti þó aldrei andann. Braggaðist um kvöldið og var kominn í sýnatöku í hádeginu á sunnudag þar sem grunur minn var staðfestur.

  Það skrýtna er að síðan hef ég ekki kennt mér meins. Ekki fundið fyrir neinu og er á fjórða degi í einangrun; stálsleginn. Þetta er svona eins og hjá Trump. Hann tók þetta á fjórum dögum og var þá mættur á fjöldafund.

  En hvaðan kom smitið?

  Það veit enginn. Maður hefur ekki heilsað neinum með handabandi síðan í mars. Þvegið sér um hendur á korters fresti með tilheyrandi spritti og virt fjarlægðartakmörk með góðu og jafnvel illu ef annað hefur ekki dugað.

  Sjálfur er ég á því að ég hafi smitast í Breiðholtslauginni. Hér birtist frétt um lokun laugarinnar að morgni þriðjudagsins 6. október. Ég var í lauginni á sunnudaginn þar áður.

  Auglýsing