DÓTTIR SKÁLDSINS OG BANKASTJÓRINN

  Svanhildur og Seðlabankastjórinn.

  Seðlabankastjóranum Ásgeiri Jónssyni er ýmislegt til lista lagt annað en að gæta að gengi krónunnar, bólgu hennar eða hjöðnun. Hann hleypur sem svarar til Hafnarfjarða á hverjum degi eftir vinnu, skrifar bók um Jón Arason í frístundum og svo lætur hann til sín taka á samfélagsmiðlum með eftirtektarverðum hætti. Eins og hér t.d.:

  Ég birti mynd eftir Loft ljósmyndara – langömmubróður minn – af stúlku í upphlutsbúningi – til að skreyta færslu um Þórunni Jónsdóttur Arasonar Hólabiskups. Þá vissi ég ekki hver stúlkan var. Ég hef nú frétt að hún heitir Svanhildur Þorsteinsdóttir. Myndin er líklega tekin við fyrstu kvikmynd Lofts „Ævintýri Jóns og Gvendar“ sem var frumsýnd 1923 í Nýja Bíó. Svanhildur mun þá hafa verið 18 ára. Sú kvikmynd er glötuð í dag.
  Svanhildur var dóttir Þorsteins Erlingssonar skálds. Þar sem Þorsteinn var yfirlýstur guðleysingi – var hún ekki skírð. En að honum látnum – ákvað móðir hennar samt að hún skyldi fermast. Var það leyst með því að skírn og ferming voru framkvæmd í sömu athöfn – sem var einstætt.
  Svanhildur þótti bæði ákaflega falleg og heillandi persónuleiki. Auk þess að leika aðalhlutverk tveimur kvikmyndum Lofts – þá lék hún stór hlutverk í sýningum Leikfélags Reykjavíkur. Hún eignaðist í kjölfarið fjölda aðdáenda innanlands og utan – merkra manna í þjóðlífinu – sem voru í bréfaskiptum við hana. Þar á meðal var Ásgrímur Jónsson – er málaði nokkrar myndir af henni og var gersamlega heillaður af henni.
  Ákafasti aðdáandi Svanhildar var franski konsúllinn André Courmont sem tók íslenskutíma hjá Þorsteini Erlingssyni. Hann bauðst þegar til þess að kenna stúlkunni bæði frönsku og ensku. André þessi var af ríku fólki – og var sagður sá útlendingur sem best hefði lært íslensku – að Kristjáni Rask undanskildum. Hann vildi kvænast henni – en hún hafnaði. Hann sneri þá aftur til Frakklands árið 1923 – en framdi sjálfsmorð mánuði síðar. Vildu sumir kenna ástarsorg um en aðrir þeim meinum sem André hlaut í styrjöldinni.
  Svanhildur hóf snemma að skrifa og birti smásögur eftir sig í blöðum og tímaritum. Hún gaf úr eina bók árið 1943, Álfaslóðir, sem hefur að geyma níu smásögur og þrjú ævintýri. Ástin og hið takmarkalausa vald hennar eru megin yrkisefni þessara sagna – sem margar eru mjög rómantískar.
  Svanhildur stundaði síðar nám í París í frönsku og frönskum bókmenntum. Auk þess dvaldi hún í Svíþjóð og hafði bæði sænsku og ensku á valdi sínu. Hún tók síðan fólk í einkatíma í þessum tungumálum.
  Svanhildur starfaði á skrifstofu alþingis í tólf ár frá árinu 1929. Sama ár kynntist hún Sæmundi Stefánssyni og gengu þau í hjónaband árið 1932. Þau eignuðust tvo syni, Þorstein og Stefán, með ellefu ára millibili. Í því framhaldi færðist starfsvettvangur hennar inn á heimilið. Hún lést síðan árið 1966 aðeins sextug að aldri – stuttu eftir mjög erfiðan skilnað.
  Ég held að vart sé hægt að finna betri konu í hlutverk Þórunnar Jónsdóttur á Grund – en einmitt Svanhildi Þorsteinsdóttur. Meðfylgjandi er mynd sem André Courmont tók af henni á sínum tíma. Myndin er birt með leyfi Þorsteins Sæmundssonar, sonar hennar.
  Auglýsing