DÓNAR Á KILI

    “Við vorum að keyra á milli Reykjavíkur og Akureyrar í gær og ákváðum að fara Kjalveg. Það var góð ákvörðun enda veðrið dásamleg og leiðin er falleg,” segir Kristín M. Jóhannesdóttir prófessor á Akureyri en þar með var ekki öll sagan sögð:

    “Það vakti hins vegar athygli mína að nær allir voru svo kurteisir. Ef vegurinn var þröngur þar sem bílar mættust var fólk mjög duglegt að stoppa bara og bíða þar til hinn bíllinn var farinn fram hjá og ýmist stoppuðum við eða bíllinn sem við vorum að mæta. Þegar keyrt var framhjá þessum sem stoppaði þakkaði hinn fyrir með því að lyft höndinni.

    Það voru nokkrar undantekningar á þessu. Bílar sem þutu framhjá manni á miklum hraða og þökkuðu ekki fyrir sig þegar stoppað hafði verið fyrir þeim. Í öllum tilfellum var um að ræða stærstu jeppana. Þá á ég ekki við að allir sem keyrðu stóru jeppana hafi hagað sér svona heldur að allir sem sýndu dónaskap voru á stórum jeppum. Kannski við á jepplingunum höfum verið fyrir þeim. Ég hvet fólk til þess að sýna tillitsemi — sérstaklega á þröngum fjallavegum. Kurteisi kostar ekkert og eins og ég sagði voru nær allir kurteisir og tillitasamir. Bara ekki allir.”

    Auglýsing