DÓMSHÚS STEINA PÍPARA

  Dómshúsið

  Steini pípari sendur myndskeyti, myndina kallar hann “Dómshúsið” og er við hæfi. Þá segir Steini:

  Alvöru lögspekingar eiga eftir að hnakkrífast um niðurstöður Mannréttindadómstólsins og er mér ofaukið í þeirri umræðu þó ég hafi þrælaða mér í gegnum dóminn. Ég velti fyrir mér hvernig við getum lagað kerfið þannig að það fullnægi kröfum réttarríkisins.
  Við búum við lýðræðisfyrirkomulag. Það þykir ekki gott að dómarar þurfi að taka þátt í kosningabaráttu eins og í Bandaríkjunum. Hætt er við að þeir glati hlutleysi sínu í fjáröflun fyrir framboð sitt. Þá er líka óheppilegt að dómaraklíka ráði hverjir sitji í dómstólum landsins án þess að lýðræðið komi þar við sögu. Hér áður fyrr var dómsmálaráðherra kjörtímabil eftir kjörtímabil úr einum og sama flokknum. Þannig röðuðust vildarvinir þess flokks í Hæstarétt.

  Við höfum jafnréttislög í landinu. Nefndir og ráð eiga að vera skipuð með sem jöfnustu hlutföllum karla og kvenna. Klíkan sem m.a. Hæstiréttur tilnefndi og átti að meta hæfi umsækjenda um dómarastöður var eingöngu skipuð körlum. Það er fáránlegt. Konur eru varkárari en karlar að jafnaði. Þær velja sér gjarnan öruggar dómstólastöður. Þá fá karlar frekar alls kyns verkefni sem gefa stig fyrir val dómara. Á sama tíma er það sérstakur hæfileiki að vera af því kyni sem hallar á. Hvernig á sá hluti mannkynsins sem hallar á að treysta dómstólum ef æðstu dómstólar eru nær eingöngu skipaðir af hinu kyninu.

  Mínar hugmyndir til að leysa vandamálin sem Mannréttindadómstóllinn kunngerði eru eftirfarandi.

  1. Skipa utanþingsmann í starf dómsmálaráðherra tímabundið. Þetta þarf að vera einstaklingur sem nýtur virðingar og er nokkuð óumdeildur í samfélaginu.

  2. Skipa nefnd okkar færustu lögfræðinga til að vera honum til ráðuneytis í málinu. Þetta mættu vera fyrrverandi hæstaréttardómarar og prófessorar.

  3. Setja núverandi valnefnd af með lögum og skipa nýja eftir nýjum reglum. Hver aðili sem tilnefnir í nefndina skal tilnefna einstaklinga af báðum kynjum. Síðan er tilnefningaraðilum raðað í ákveðna röð. Valinn er einstaklingur úr fyrsta parinu með hlutkesti og síðan er valin einstaklingur af hinu kyninu úr næsta og víxlað þannig þar til nefndin er full skipuð.

  4. Gerðar verði nokkuð nákvæmar reglur um hvaða atriði ráði í hæfnismati og þess gætt að þær séu ekki þannig að þær útiloki konur.

  5. Meta þarf það sem sérstakan hæfileika að vera af því kyni sem hallar á í viðkomandi dómstóli.

  Þá eiga að vera reglur um að sá dómsmálaráðherra sem er ósáttur við niðurstöðu nefndarinnar skuli endursenda málið til nefndarinnar. Þá skuli nefndin senda allar upplýsingar og rökstuðning með niðurstöðu sinni þannig að frekari rannsókn sé óþörf.

  Auglýsing