DÁTARNIR KLÁRUÐU BJÓRINN Á SÆTA SVÍNINU – NEYÐAROPNUN HJÁ ÖLGERÐINNI

    Nató-dátar sem hér eru við æfingar og komu á heilu flugvélamóðurskipi og fylgdarskipi brugðu sér í bæinn á laugardagskvöldið og endaði það með því að Ölgerðin þurfti að reyna neyðaropnun um miðja nótt því dátarnir kláruðu allan bjórinn í miðbæ Reykjavíkur.

    Verst var þetta á Sæta svíninu í Hafnarstræti sem dátarnir höfðu augastað á þegar svallið hófst. Dátarnir skipta þúsundum, 4-6000 segja sumir, og veitingamenn voru ekki undir það búnir. Hlaupandi á milli staða í miðbænum til að fá lánaða bjórkúta en svo fór að allt kláraðist. Og dátarnir vildu meira.

    Var reynt að hringja í Ölgerðina og fá neyðaropnun á afgreiðslu og þar reyndu menn sitt besta en við ofurefli var að etja.

    “Ég hef aldrei lent í öðru eins,” sagði ölsölumaður á vakt.

    Talið er að heræfingar séu komnar í samt lag eftir þessa kráarárás hermannanna í miðbæ Reykjavíkur um helgina.

    Þarna eru mörg þúsund manns um borð. Mynd / Herb
    Auglýsing