BYGGÐASAFN ÁRNESINGA 70 ÁRA

Í dag eru 70 ár liðin frá því farið var að skrá gripi til Byggðasafns Árnesinga og safn varð til. Skúli Helgason frá Svínavatni sá um söfnunina og mótaði grunnsýningu safnsins sem var til 1995 á Selfossi en síðan í Húsinu á Eyrarbakka. Í aðfangabók Skúla eru fyrstu gripirnir skráðir 1. júní 1953 þegar hann tók við munum frá Arnarstöðum í Flóa ásamt því sem hann skráði gamla muni úr sínum fórum. Stöðug söfnun hefur verið við safnið síðan og nálgast skráðir gripir á áttunda þúsund með undirsöfnum.

Í tilefni afmælisins setti safnið á fót Ásgrímsleiðina ásamt Listasafni Árnesinga  og Listasafni Íslands. Minnt er á einn fremsta listamann þjóðarinnar sem fæddist í Árnessýslu og var Ásgrímur Jónsson (1876-1958) listmálari frá Rútsstaða-Suðurkoti í Flóa. Sögustaðir Ásgríms í Flóanum eru til staðar. Í borðstofu Hússins á Eyrarbakka er sýning um æsku Ásgríms, „Drengurinn, fjöllin og Húsið“. Einnig sýningin Hornsteinn í Listasafni Árnesinga.

Í tilefni 70 ára afmælis Byggðasafns Árnesinga hefur verið sett um vefsýning á síðunni www.sarpur.is sem er gagnagrunnur íslenskra safna. Þar er safnið kynnt ásamt vel völdum safnmunum úr safnkosti safnsins. Á sýningunni eru kynntir gripir úr öllum gömlu sveitarfélögum Árnessýslu. Mestallur safnkostur Byggðasafns Árnesinga er skráður í Sarp og geta allir áhugasamir kynnt sér gripi sem eiga sér uppruna í þessu stóra og fjölmenna héraði.

Auglýsing