BRYNDÍS MINNIST ATLA HEIMIS

  Atli Heimir Sveinsson tónskáld er látinn. Bryndís Schram minnist hans á páskadagsmorgni:

  “Atli Heimir, æskuvinur minn, er horfinn af leiksviði lífsins, saddur lífdaga. Þegar ég lít til baka til æskuáranna, þá rifjast það upp fyrir mér, að það var eiginlega Atli Heimir, sem var fyrsti besti vinur minn í þessu lífi.
  Ég var bara tíu ára, nýflutt í Vesturbæinn og átti að hefja nám í Melaskóla þetta haust. Pabbi fylgdi mér fyrsta daginn – alla leið inn í stofu. Ég man, að kennarinn okkar, hann Axel, lét alla standa upp og leiddi mig síðan til sætis alveg upp við kennaraborðið.
  Ég þorði auðvitað ekki að líta aftur fyrir mig, en ég hafði tekið eftir þessum strák með eldrautt hár – og gleraugu. Hann hafði einhvern veginn náð athygli minni, horft beint í augun á mér, brosað varfærnislega – jafnvel glettnislega – eins og við þekktumst nú þegar.
  Þessi strákur hét Atli Heimir, og frá fyrsta degi urðum við eins konar sálufélagar. Ég bar mikla virðingu fyrir honum, því að hann var snillingur, spilaði bæði á flöskur og píanó. Ég var að læra að dansa og stundum kom fyrir, að við vorum beðin um að skemmta skólafélögum.
  Atli Heimir var tíu ára orðinn hámenntaður í sögu vestrænnar tónlistar. Hann þekkti öll helstu tónskáldin og opnaði mér nýja sýn á lífið og töfra þess. Tónlist Chopins og Tsjaikovskys átti hug minn allan á þessum árum – tónlist sem ég lærði að dansa eftir. Þökk sé þessum besta vini mínum, Atla Heimi.”

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinSAGT ER…
  Næsta greinSAGT ER…