BORÐSTOFAN ÞARF AÐ VERA Í JAFNVÆGI

  Anna Gunnarsdóttir stílisti – Anna & útlitið – fjallar um borðstofuna.

  Borðstofan er oftar en ekki staðurinn þar sem gestir setjast við þegar þeim er boðið inn fyrir. Það sem við þurfum að passa til að gera borðstofuna meira fágaða er að hafa ekki of mikið af hlutum heldur vanda valið og enn betra að tengja þá saman með litum. Plöntur í mildum tónum hjálpa við að setja jafnvægi á rýmið.

  Byrjum á að skoða miðpunkt borðstofunnar, borðið. Þegar velja á borð er mikilvægt að það sé klassískt og passi við fleiri en einn stíl þar sem við viljum geta breytt hlutunum í kringum það án þess að losa okkur við borðið sjálft. Ef mikið er um við á heimilinu sem dæmi parket, viðarinnrétting, skápar og fleira þarf að passa að borðið sé í svipuðum litartón og hlutirnir í kring. Stærðin þarf alfarið að fara eftir rýminu, ekki er sniðugt að hafa þung og stór húsgögn í þröngu rými.

  Ljósið yfir borðstofuborðinu skiptir miklu máli, það setur ákveðinn stíl yfir rýmið. Mikilvægt er að það sé í réttri hæð til þess að það lýsi ekki í augun á fólki. Dimmer yfir borðinu gerir okkur auðvelt fyrir til að mynda stemningu og þar með er einnig lítið mál að hækka birtuna þegar borðstofan er notuð sem dæmi í vinnu eða lærdóm.

  Ég persónulega er mjög hrifin af tímalausri og klassískri hönnun sem aldrei rennur úr tísku. Listaverk eða málverk á vegg í borðstofunni er frábær leið til að sýna þinn stíl. Þar sem matarboð fara fram í þessu rými þá hafa gestirnir nægan tíma til að pæla og dást að verkinu.

  Borðstofan er einmitt staðurinn til að leika sér með skreytingum og fylgihlutum. Ljósir náttúru litir fara vel á stórum flötum og mismunandi áferðir og litir á fylgihlutum. Matt, glans, mjúkt og hrátt passar mjög vel saman þegar á að mynda hreyfingu á útlit. Munum að ljósir litir stækka og dökkir litir minnka rýmið.

  Auglýsing