BOLLI SLÁTRAR BORGARSTJÓRA MEÐ BREIÐSÍÐU

  Bolli Kristinsson, athafnamaður og lengi kaupmaður við Laugaveg, birtir opnuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag þar sem hann hvetur borgarbúa til að kjósa Dag B. Eggertsson aldrei aftur og ástæðan: Meintur dauði miðbæjarins og þá sérstaklega Laugavegarins þar sem engin verslun og þjónusta þrífst lengur eftir að lokað var fyrir bílaumferð.

  “Viðskiptavinir komast ekki í bæinn og leita annað. Verslanir og veitingahús fá því engin viðskipti. Um þessar mundir eru yfir 30 verslunarpláss tóm við Laugaveginn og gætu trúlega orðið 50 í vetur. Þetta ástand verður ekki skrifað á neina farsótt eða aukna netverslun. Borgarstjórn Reykjavíkur með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar ber
  fulla ábyrgð á því sem hér hefur átt sér stað,” segir meðal annar í auglýsingunni þar sem Bolli tínir ýmislegt til, skrifar á Dag borgarstjóra og klykkir út með þessu:

  “Reykjavíkurborg er de facto gjaldþrota og hefur verið um langa hríð. Þannig mætti halda lengi áfram að telja og þarf enginn að velkjast í vafa um að Dagur B. Eggertsson
  er versti borgarstjóri Reykjavíkur frá upphafi. Sammælumst um að kjósa hann aldrei aftur! Endurreisn borgarinnar getur ekki hafist fyrr en niðurrifsöflin hafa verið brotin á bak aftur.”

  Auglýsing