BESTA BYGGINGASVÆÐIÐ NOTAÐ FYRIR GOLF

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Ég horfi hérna yfir Korpúlfstaðarlandið þegar ég ek frá heimili mínu. Framsýnir stjórnendur Reykjavíkur keyptu landið sem framtíðar byggingarland, langt út fyrir þáverandi byggð.

  Þröngsýni hefur tekið við. Þessu verðmæta landi var breytt í golfvöll fyrir fáa og í staðinn var tekin upp stefnan „þétting byggðar“ með það að augnamiði að byggja bara fyrir þá ríku á dýrustu lóðum landsins inn í miðbæ borgarinnar.

  Steini pípari

  Á ákveðnum tíma verkamannakerfisins voru byggð lítil raðhús og jafnvel einbýlishús. Ég sé fyrir mér að Korpúlfstaðalandið verði einmitt byggt slíkum húsum ásamt lágum blokkum og þannig mætt þörfum sívaxandi fjölda smárra fjölskyldna, ungmenna og eldra fólks sem vill sjálfstæða búsetu. Mjög gjarnan mætti hafa félagsleg viðmið á lóðarverði.

  Þegar ég fór að hugsa þessa hugmynd nánar þá sá ég hversu vitlaust það er að gera það ekki. Þarna er Eigilshöll í göngufæri, Korputorg í næsta nágrenni, búið er að byggja skóla sem hefur ekki nægan fjölda barna. Frá strætisvagna sjónarmiði er þetta líka þétting byggðar þar sem strætó fer tíðar ferðir í Mosfellsbæinn.

  Það var allt í lagi að nota svæðið fyrir golfvöll tímabundið en nú hlýtur að vera rétt að finna honum annan stað.

  Auglýsing