BEST VARÐVEITTA LEYNDARMÁL EGILSSTAÐA – KJÖT & FISKUR

    Gestur Jens við hlaðborð kræsinga: "Heimamenn eru ekki alveg að fatta þetta en túristarnir hafa kveikt á perunni."

    Eitt mesta undur Egilsstaða er Kjöt & fiskur í iðnaðarhverfi bakatil við Blómaval og Húsasmiðjuna á leiðinni í Hallormsstað. Heimamenn eru ekki alveg að fatta þetta en túristarnir hafa kveikt á perunni, þeir vilja ferskan fisk og lamb og fjölmenna í þessa einu matvöruverslun sem er í eigu heimamanna á Egilsstöðum og sitja gjarnan að snæðingi langt fram etir kvöldi á bílaplaninu fyrir utan.

    …túristar sitja gjarnan að snæðingi langt fram etir kvöldi á bílaplaninu fyrir utan.

    “Ég er með heitan mat í hádeginu og fram eftir degi, snara þessu öllu upp sjálfur enda vonlaust að fá nokkurn mann í vinnu hér á svæðinu,” segir Gestur Jens Hallgrímsson sem flutti frá Grundarfirði og austur 1999 og fór í þannan bisniss. Sægreifar hörðu keypt upp kvótann í Grundarfirði, lofuðu að vera um kyrrt en hurfu svo allt í einu norður með góssið og Gestur fór austur.

    Veisla fyrir tvo á tvöþúsundkall.

    Kæliborðið hjá Gesti er sömu ættar og í Melabúðinni í Reykjavík 107, fiskréttir af öllu tagi, kjötmeti og svo kótilettur sem slá öllum kótilettum landsins við og þó víðar væri leitað – vel snyrtar, mjúkar, passlega þykkar beint á grillið og ódýrari en annars staðar. Átta kótilettur á rétt rúmar 2.000 krónur, veisla fyrir tvo. Toppið það.

    “Heimamenn koma lítið hingað og ef þeir koma kaupa þeir lítið enda eiga flestir hér ættingja á bóndabæjum sem geta skaffað kjöt. Fólk af fjörðunum kemur hingað hins vegar mikið enda erfitt að nálgast ferskan fisk við sjávarsíðuna eins merkilegt og það nú er. En túristarnir bjarga mér alveg á sumrin og veturnir harðir fyrir bragðið,” segir Gestur sem annars er bóndi á Blöndubakki þarna í sveitinni og rekur þar ferðaþjónustu í bland við Kjöt & fisk ásamt syni sínum.

    Auglýsing