BARNAVAGNABLÚS STRÆTÓ

  Erla E. Völudóttir, sem starfaði áður sem ræstitæknir hjá Reykjavíkurborg, ferðaðist í gær með strætisvagni 14 með barnavagn, varð ekki um sel og sendi Strætó póst:

  “Ég ferðaðist rétt í þessu niður í miðbæ með leið 14, með barnavagn meðferðis. Ferðin sjálf var ágæt en mig langar að benda ykkur á að koma eftirfarandi áleiðis til vagnstjóranna ykkar:

  1) Ef á að vera raunhæft fyrir barnavagna og hjólastóla að komast af gangstétt upp í strætisvagn, þarf vagninn að staðnæmast við gangstéttarbrúnina. Ekki hálfan metra frá henni.

  2) Til að komast með barnavagn niður hæðarmun er hentugast að bakka honum. Þegar ég bakkaði vagninum út í dag (eða reyndi það, sem endaði með að annar farþegi þurfti að aðstoða mig, eins og gerðist líka þegar ég fór upp í vagninn) lokaði bílstjórinn hurðinni á okkur, sá bara að ég var komin út og var greinilega ekkert að spá í barnavagninn. Þurfti að kalla nokkrum sinnum til hans áður en hann opnaði aftur. Ekki gaman.

  3) Á ekki að vera hægt að lækka vagninn niður í gangstéttarhæð til að auðvelda aðgengi? Af hverju er ekki bara standard að gera það þegar farþegar þurfa augljóslega á því að halda? Þá væri hvorugt af ofantöldu vandamál. Ég á ekki að þurfa liðsauka til að fara með barnið mitt í strætó. Þið eigið hinsvegar að fræða fólkið sem ekur fyrir ykkur um grundvallaratriði sem þarf að sinna til að fólk geti tekið strætó.”

  Auglýsing