BARN HANDTEKIÐ

  Nanna í barnavagninum og núna í Svíþjóð.

  “Barn handtekið”. Svo segir í yfirskrift með þessari mynd sem birtist í Morgunblaðinu árið 1960. Ekki kemur fram hvert tilefnið er, en Ólafur K. Magnússon sem var blaðaljósmyndari Morgunblaðsins í nær hálfa öld, fangaði þetta augnablik, en hann hafði gott auga fyrir ýmsu sem fyrir auga bar. Sennilega eru lögreglumennirnir bara að hjálpa móður barnsins að flytja barnavagninn og líklega er það móðir barnsins sem heldur afturdyrum lögreglubifreiðarinnar,” segir Örn Jónasson em gróf upp myndina, setti á vefinn og bætir við:

  “Gaman væri að vita hvort að barnið kannaðist við sig eða hvort einhver kannaðist við barnið sem komst þarna í fréttirnar.”

  Jóhanna Elísabet Jónsdóttir er með svarið: “Já þetta veit ég. Sú sem er í vagninum heitir Nanna G. Heiðarsdóttir, fædd 1959, var í pössun, en gleymdist fyrir utan Dennabúð á Vesturgötu, og Denni hringdi í lögregluna.”

  Nanna, sem þarna sat í vagninum, er nú búsett í Hudiksvall í Svíþjóð og hefur það bara gott.

  Auglýsing