BANN-BÍTAR Í ÞJÓÐGARÐI

  Langisjór í Vatnajökulsþjóðgarði.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Þeir eru einhvers konar bann-bítar sem nota mjög vafasöm rök til að banna fólki hvað sem er. Fyrstu viðbrögð umhverfisráðherra á skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs í heimsminjaskrá voru að réttlæta þær takmarkanir á ferðafrelsi í þjóðgarðinum sem nú þegar hafa verið gerðar.

  Þó ég hafi grandskoðað viðurkenningarplaggið kemur hvergi fram að það eigi að loka því fyrir almenningi. Þvert á móti er talað um byggja upp aðstöðu fyrir aukinn ferðamannastraum þar sem hann er mestur og auka landvörslu og áróður gegn utanvegaakstri.

  Það er tvímælalaust í anstöðu við stefnu UNESCO að þeirra nafni sé beitt um lokanir eða annað sem er ekki hluti af viðurkenningu þeirra á svæðinu eins og umhverfisráðherra hefur gert.

  Íslensk stjórnvöld hafa dregið upp mynd af stjórn þjóðgarðsins sem er í ósamræmi við þær lokanir sem hafa verið framkvæmdar. Nú liggur beinast við að stjórn þjóðgarðsins standi við stóru orðin og geri þetta merka svæði aðgengilegt, haldi upp fræðslu um hversu jarðfræðilega einstakt það er og leyfi fólki að sjá það berum augum. Það er einmitt það sem viðurkenningin felur í sér.

  Ég legg til að byrjað verði á að opna Vonarskarð. Þá þarf að leggja vegarspottann að hverasvæðum í Snapadal í útjaðri Vonarskarðs. Útbúa þarf bílastæði og tjaldstæði. Þá þarf að afgirða brautir að svæðinu sem hreyfihamlaðir geta ferðast um. Þannig eru þjóðgarðar eins og Yellowstone reknir. Það væri ekki úr vegi að nefnd Vatnajökulsþjóðgarðs lærðu af þeim í staðinn fyrir að byggja allar sýnar tillögur eingöngu á tilfinningum.

  Auglýsing