AUSTUR-ÞÝSKUR KOMMI Í LÆKJARGÖTU

    Ekki er víst að margir hafi tekið eftir því að næst-frægasta tákn gamla Austur-Þýskalands (á eftir Berlínarmúrnum) er mætt ljóslifandi á gangbrautarljósin frá Bankastræti yfir Lækjargötuna. Þarna er sjálfur Ampelmann mættur, en þannig var táknið á gangbrautarljósunum í gamla kommúnistaríkinu. Töluvert frábrugðið því sem við eigum að þekkja, sérstaklega sú staðreynd að Ampelmann er karl með hatt.

    Ekki verður Reykjavíkurborg sökuð um laumukommúnisma, heldur er Ampelmann með eindæmum vinsæll víða í Evrópu, einkum þó í Berlín og gangbrautaverðir borgarinnar hafa bara viljað gleðja okkur líka. En Ampelmann er ekki bara vinsæll sem gangbrautarljós, heldur er til urmull af minjagripum í sérstökum Ampelmann búðum, sem einnig eru á netinu og senda um allan heim.

    Það er eitthvað sérstaklega “krúttlegt” við þennan rauða og græna austur-þýska karl sem sagði kúguðum borgurum kommúnistaríkisins hvenær þeir mættu ganga yfir götu og hvenær ekki. Eftir fall múrsins varð Ampelmann að “költ” fígúru í Berlín og lifir nú góðu lífi. Líka í Reykjavík.

    Auglýsing