AUÐMAÐUR HINDRAR FERÐAFRELSI

  Álftavatn

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Það eru sumir sem halda því fram að eignarrétturinn sé takmarkalaus og varinn í stjórnarskrá. Þessum mönnum þætti í lagi að eigandi Kersins í Grímsnesi mokaði því upp á vörubílspall og seldi undir grunna í Reykjavík. Ef þetta væri heimilt væri gengið á hefðarrétt annarra að njóta þessa náttúrufyrirbrigðis. Þá eru ýmsar aðrar takmarkanir á eignarétti sem eru taldar heimilar vegna þess að um almennar reglur eru að ræða. Þar koma til grendarsjónarmið og hefðaður réttur almennings um frjálsa för um landið. Þá getur eignarréttur einstaklinga vikið fyrir mikilvægum almannahagsmunum enda komi gjald fyrir.

  Ákveðinn réttur almennings til að fara um eignarlönd hefur verið í lögum frá upphafi lagasetningar hér. Það eru ákvæði þessa efnis í Grágás sem geymir lög frá Þjóðveldisöld. Nú eru ákvæði þessa efnis í náttúrverndarlögum.

  Í 17. gr. þeirra segir: „Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.“ Þetta á sérstaklega við um óræktað land utan þéttbýlis.

  Þá segir í sömur grein: „ Almenningi er frjáls för um vegi … 1) þar sem akstur er heimill samkvæmt [skrá yfir vegi í náttúru Íslands], 1) sbr. 32. gr., með þeim takmörkunum og skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þessum og í vegalögum, og reglugerðum settum eftir þeim.“ Þá er óheimilt að útiloka för almennings um bakka vatna og áa.

  Hér áður fyrr girtu menn aðeins heimalönd sín og síðan komu sauðfjárveikigirðingar sem yfirleitt höfðu stiga fyrir gangandi umferð. Nú er í auknu mæli farið að girða utan heimalanda. Auðugir menn kaupa heilu landsvæðin og girða þau af og vegagerðin girðir með fram vegum án þess að setja upp göngustiga yfir girðingarnar.

  Af þessum sökum er orðin ákveðin spenna milli þeirra sem girða og hinna sem vilja halda sínum rétti. Í náttúruverndarlögum eru ákvæði um frjálsa för. Þar er ekki tekið til að löndin þurfi að vera ógirt.

  Nú hefur auðmaður eignast Heiðardalinn við Vík í Mýrdal og sett upp skilti sem bannar akstur um veg sem er á vegaskrá Vegagerðarinnar. Hann tekur sér vald sem framkvæmdavaldið hefur. Það þarf að verja ferðafrelsi almennings. Ég sé ekkert annað í stöðunni en siga lögreglu á þennann útlending sem greinilega brýtur lög. Honum er einnig óheimilt að setja upp umferðarskilti á opinberan veg nema með samþykki yfirvalda.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinFLJÚGANDI FANTUR
  Næsta greinSAGT ER…