ATHUGASEMD FRÁ DOMINO´S

  Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino’s, vill koma á framfæri skýringum vegna fréttar sem hér birtist – Gróðamylla Dominos – um hrópandi verðmun á Dominospizzum á Íslandi og í Svíþjóð.

  Það er mjög skiljanlegt að fólk reki upp stór augu þegar það sér verðmuninn sem birtist við að gera þennan einfalda samanburð, líkt og þú gerir á eirikurjonsson.is.

  Skýringin á þessu er einföld. Í Svíþjóð er rukkað sérstaklega fyrir heimsendingu (49 SEK eða 623 ISK á gengi dagsins) en á Íslandi er heimsendingin hins vegar innifalin í verðinu. Í verðdæmi þínu frá Svíþjóð þá er ekki búið að velja heimsendingu. Kostnaður Domino’s á Íslandi við hverja heimsendingu er í kringum 1.000 krónur, þegar allt er talið og er honum velt yfir á alla sem kaupa pizzur hjá okkur, óháð því hvort þeir sækja eða fá sent. Þeir sem sækja fá samt eitthvað fyrir sinn snúð. Ástæðan er sú að yfirgnæfandi meirihluti þeirra Domino’s pizza sem fólk sækir á Íslandi eru keyptar á einhverju af mýmörgum föstum tilboðum sem í boði eru á Domino´s, t.a.m. tvennutilboði, þriðjudagstilboði eða megaviku-tilboði. Á hinum Norðurlöndunum þekkist ekki þessi mikla afsláttarmenning heldur vilja norskir og sænskir neytendur vita hvað hlutirnir kosta nákvæmlega og þeir vilja frekar greiða verðið eins og það birtist á verðlistanum heldur en að kaupa fyrirfram ákveðin tilboð. En á hinu afsláttar-óða Íslandi er meðaltals söluverð á pizzum, rétt eins og á flestum öðrum vörum, talsvert lægra en verðlistaverðið.

  Verðmunurinn sem þú fjallar um í frétt þinni liggur fyrst og fremst í þessu. Annars er samanburður á verðlagi á Íslandi og Norðurlöndum oft erfiður. Gengi gjaldmiðla í þessum löndum sveiflast og þá er kostnaður við hráefnisinnkaup mun lægri í Svíþjóð en á Íslandi.

  Þriðja og síðasta skýringin í öllu þessu skýringaflóði er sú að pizzan hér og pizzan í Svíþjóð er ekki alveg pizzan. Þannig er stór pizza í Svíþjóð 14” að stærð en á Íslandi er hún 14,5”.

  Ég vona að þú takir þessi svör okkar til greina. Íslendingar eru mjög duglegir að fylgjast með verðbreytingum og miklar vinsældir Domino’s hér á landi eru meðal annars vegna þess að fyrirtækið hefur boðið hagstæð verð, þó að framsetning verðlagningarinnar sé önnur hér en í Svíþjóð.

  Það er hins vegar mikilvægt að halda okkur og öðrum íslenskum fyrirtækjum á tánum og benda á það ef verðlagning er í ólagi.

  Með góðri kveðju,

  Auglýsing