ATHAFNASKÁLD Í HAM Á DRAFNARBORG

  Jóhann Helgi og Margrét eiginkona hans.

  Jóhann Helgi & Co er að umbreyta útisvæðinu í leikskólanum Drafnarborg við Drafnarstíg í vesturbæ Reykjavíkur af þvílíkum krafti að aðdáun vekur í hverfinu. Nýr sandkassi, hellulagnir og fallega hönnuð leiktæki; allt sem Jóhann Helgi & Co flytur inn sjálfur fyrir utan að teikna upp og hanna leiksvæðið. Þetta er alveg að klárast og á meðan eru börnin vistuð í nálægum leikskólum.

  Ný Drafnarborg að líta dagsins ljós.

  Jóhann Helgi Hlöðversson er í raun meira en verktaki í lóðagerð, hann er athafnaskáld sem kann að sýna tilfinningar eins og sjá má á ástaróði hans til Margrétar eiginkonu sinnar fyrir þremur dögum þegar framkvæmdagleðin var í hápunkti á Drafnarborg:

  Í dag 13.9.2019 eigum við Magga 16 ára brúðkaupsafmæli. Eftir 10 daga eigum við 18 ára samvistar afmæli. Ég man það eins og gerst hafi í gær þegar þessi elska hringdi í mig á Laugardagskvöldi 22.9.2001 og sagðist heita Margrét Ormsdóttir og starfaði hjá Eimskip í Hafnarfirði. Hún byrjaði á því að spyrja hvort ég væri ekki örugglega skilinn? Ég bað hana um að koma í heimsókn með það sama en ég var ekki viss hver hún væri? Hún sagðis frekar vilja að ég biði sér í bíó eða á kaffihús á Sunnudeginum. Ég bauð henni heim í osta og rauðvín. Skvísan mætti sjö mínútum of seint. Ég varð dolfallin yfir fegurð hennar og útgeislun og við höfum verið óaðskilin síðan. Ég fékk ekki aðeins Möggu heldur einnig tvo syni með henni. Almar Yngvi Garðarsson og Daníel Aron Davíðsson . Það hefur örugglega ekki hvarflað að henni hversu örlagaríkt þetta símtal var. Á þessu tímabili höfum við eignast og gert upp sveitabæinn Vatnsholt í Flóahrepp. Eignast tugi holdanauta, holdskanína, hrossa, hunda, hænsna, dúfna og kalkúna. Nokkra fasana, hrafna, refi og páfagauka. Nokkrar skjaldbökur, ketti og geitur. Gæsir og alíendur. Svín og alímýs. Margrét eignaðist ekki bara eiginmann heldur fylgdu honum 3 börn. Elísabet Ögn Jóhannsdóttir , Sigurbjörn Hlöðver Jóhannsson og Victor Páll. Það var skammt stórra högga á milli þar sem Victor Páll lést í bílslysi aðeins einum og hálfum mánuði eftir brúðkaupið eða 30.10.2003 aðeins rúmlega 8 ára. Börnin okkar eru öll á góðum stað í lífinu og eru að gera frábæra hluti. Þau eru öll búin að finna sinn lífsförunaut og festa ráð sitt. Elísabet + Kári Einarsson og Frosti. Sigurbjörn Hlöðver og Ólöf Helga Jónsdóttir með Victor Þór og Aríu Lóu. Almar + Ásta Steina Skúladóttir með Eirík Skúla. Daníel Aron og Berglind Rut eru bæði í háskólanum á daginn og stunda verklega rúmfræði á kvöldin. Við erum búin að læra og upplifa margt í okkar ágæta hjónabandi. Opna og reka 3 barnafataverslanir í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði með okkar eigin innflutning og umboð. Lifa af kreppu (2008-2013) með því að flytja í kartöflugeymslu og búa þar í 5 ár. Safna ösku úr Eyjafjallajökli og sauma þúsundir af öskupokum, sem seldir voru í Bláa Lóninu og upp á flugvelli. Stofna Hótel Vatnsholt www.hotelvatnsholt.is úr gömlum sveitabæ, fjósi, hlöðu og hesthúsi. Þar hafa verið haldnar ófáar veislur og þar ber hæst Villibráðarveisla ársins, þar sem meistarakokkurinn Úlfar Finnbjörns Ulli Wild Chef tryllir bragðlaukana með sinni alkunnu snilld. Veislan verður haldin að þessu sinni 9. Nóvember 2019 og endilega pantið borð núna því færri komast að en vilja. Stofna og reka hestaleigu. Temja hrafna og tófur í hlutverk í bíómyndum, sjónvarpsauglýsingum og þáttum eins og til dæmis Vikings ofl. Opna fyrsta og eina blindra veitingarhús á Íslandi þar sem gestir borða í kolsvarta myrkri. www.blindraven.is . Reka verktaka og innflutningsfyrirtækið Jóhann Helgi & Co www.johannhelgi.is sem ég hef rekið frá árinu 1990. Fjölga umboðum í öllu er viðkemur leik og íþróttasvæðum. Eignast fjölda góðra vina um allan heim. Læra Pólsku. Vera með yfir 20 manns í vinnu. Ferðast til ca 60-80 landa og þar á meðal Norður Kóreu og Vestmannaeyja. Eignast tugi bíla og þar á meðal Teslu og Trabant. Stundað ýmsar æfingar jafnt innan sem utan veggja svefnherbergisins. Búa í hjólhýsi á tjaldsvæðum borgarinnar í 2 sumur vegna anna við endurgerð leiksvæða á höfuðborgarsvæðinu. Eignast nokkur hús í Flóahreppi og íðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði en fá upp í hendurnar paradísarsumarhöll Hrafn Gunnlaugsson sem við leigjum og búum í við Helluvatn í Heiðmörk til 14 ára ef guð og lukkan lofar. Magga mín ég veit að það eru ekki margar konur í veröldinni eins og þú og ég er alltaf jafn ástfangin af þér. Betri ferðafélaga í gegn um Lífið og besta vin er ekki hægt að hugsa sér. Þú fullkomnar mig og til hamingju með daginn okkar. Love you.

  Auglýsing