ARKITEKT ÍSLENSKA ROKKSINS ALDREI KOMIÐ TIL AMERÍKU

  Þorsteinn Eggertsson nú og þá (nýfluttur til Keflavíkur ´59).

  Um helgina barst myndskeyti frá Jóni Óskari myndlistarmanni sem leit svona út:

  “Já, það er rétt, ég hef aldrei komið til Ameríku,” segir Þorsteinn að þessu tilefni en segist þó hafa kynnst fleiri Bandaríkjamönnum en margir aðrir.

  “Ég er frá Keflavík og vann mikið upp á Velli og kynntist þá fjölda Ameríkana úr öllum fylkjum. Bandaríkin eru svo mörg lönd og margar þjóðir sem eru innbyrðis ólíkari en allar Evrópuþjóðir ef út í það er farið. Til dæmis kynntist ég einum frá Kentucky sem hafði aldrei séð skó áður en hann fór í herinn.”

  Vináttan og kunningsskapurinn við Kanann á Vellinum tók á sig ýmsar myndir í lífi Þorsteins:

  “Einu sinni skipti ég um föt við hermann og saman fórum við til Reykjavíkur svo hann gæti farið út að skemmta sér. Hann fór svo beint í Þórskaffi í fötunum mínum á meðan ég beið í einkennisbúningi hans á Hótel Skjaldbreið þar sem Kaninn pantaði yfirleitt herbergi í höfuðborginni. Svo komst þetta upp og hermaðurinn missti eina heiðursræmu af búningnum sínum.”

  Komst þetta upp? Hvernig?

  “Jú, fólk fór að tala við hann í Þórskaffi og hann kunni enga íslensku.”

  Gat þetta ekki verið bandarískur ferðamaður?

  “Nei, það voru engir túristar þá. Þetta var í febrúar.”

  Þorsteinn Eggertsson er afkastamesti og lýriskasti textahöfundur íslenkrar dægurtónlistar og hefur svo verið í áratugi. Þekktastur er hann fyrir samstarfið við Gunnar Þórðarson og Hljóma og fræg af honum sagan þegar skilaboð bárust frá Gunnari Þórðarsyni sem var í upptökum í Hljóðrita í Hafnarfirði um að það vantaði texta í hvelli:

  “Ég stökk upp í leigubíl og brunaði frá Keflavík í Fjörðinn og orti textann á leiðinni.”

  Hvaða texti var það?

  “Minnir að það hafi verið Harðsnúna Hanna,” segir Þorsteinn sem verður áttræður í febrúar.

  Auglýsing