AMMA VAR FÍN FRÚ – BREYTTAR AÐSTÆÐUR

    Dæmi um breyttar aðstæður; þá átti afi minn Tjarnargötu 33 sem núna er leikskólinn Tjarnaborg. Hann keypti þetta hús 1925 af Hannesi Hafstein ráðherra sem flutti yfir götuna í Ráðherrabústaðinn. Þarna hélt hann myndarlegt heimili, þrjú börn, nokkrir kostgangarar í hádegismat, þjónustustúlka og eldabuska. Amma var fín frú.

    Þegar fór að hægjast um og synirnir tveir fluttir að heiman þá seldi hann húsið c.a. 1937 eða 8 og leigði í Hafnarstræti 23 til að byrja með.

    Svo kom heimstyrjöldin. Afi var spurður afhverju hann keypti ekki annað hús eða góða íbúð. Hann svaraði því þannig að hann ætlaði að bíða þangað til stríðið væri búið því þá mundi fasteignaverð lækka eins og gerðist eftir fyrri heimstyrjöldina.

    En hér var allt breytt. 200.000 hermenn sem dældu peningum inn í hagkerfið í 5 ár (blessað stríðið) og svo kom Marshallaðstoðin og allskonar. Svo geisaði verðbólgan sem aldrei fyrr þannig að peningarnir sem hann hafði fengið við söluna á Tjarnargötu brunnu upp og hurfu eins og dögg fyrir sólu. Hann keypti aldrei nýtt hús og leigði það sem eftir var. Þetta veit ég því ég er alinn upp hjá þeim.

    Hafandi sagt þetta þá er ég ekki svo viss um að ferðaiðnaðurinn muni taka við sér aftur í þeim mæli sem hann var kominn í en hann var svolítið orðinn eins og gullgrafaraævintýrið í Klondike eða síldin á Siglufirði, menn óðu áfram eins og engin væri morgundagurinn. Sama hvað var í boði, túristinn keypti nánast hvað sem var í leit að afþreyingu. Við héldum að þetta væri framtíðin, fleiri þúsund ný hótelherbergi á innan við tíu árum, miðbærinn fylltist af veitingastöðum sem flestir gengu þokkalega og sumir vel. Verðlag var hátt þar sem við seldum í krónum sem var sterk en túristinn borgaði í gjaldeyri. En hann lét sig hafa það “Ísland var inn”.

    Núna er krónan veik sem þýðir að verðlag hefur lækkað þ.e.a.s. ef við höldum áfram að selja hótelherbergi og ferðir í krónum en reynum ekki að halda í evruverðin til að fá meira í kassann því það var komið offramboð og erfiðleikar farnir að gera vart við sig. Nú reynir á…!

    Auglýsing