ALLT Í HÁALOFT HJÁ HS ORKU

  Ásgeir Margeirsson, Finnur Beck og Hvalá - stærri biti að kyngja en haldið var í fyrstu.

  Úr gufunni:

  Andrúmsloftið hjá HS Orku á Reykjanesi er vægast sagt eitrað þessa dagana. Minnstu áhyggjurnar eru þó af 400 milljónunum sem netglæpamenn göbbuðu fyrirtækið til að senda sér. Hluti þeirra fjármuna mun endurheimtast. Það sem hvílir þyngst á eigendum og stjórnendum HS Orku er fyrirhuguð Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum.

  Að sögn eru það hinir bresku helmingseigendur í HS Orku, Ancala Partners, sem hafa efasemdir um Hvalárvirkjun og vilja bakka út úr henni. Það sem mestu ræður hjá Ancala er að markmið fyrirtækisins er að fjárfesta í áhættulitlum innviðaverkefnum (low risk infrastructure assets). Hvalárvirkjun er aftur á móti afar áhættusöm. Í sumar kom í ljós að líklegast hefur virkjunin ekki aðgang að öllu því vatni sem þarf til að gera hana arðbæra. Um 25-30% af vatnasvæðinu er í höndum landeigenda sem vilja ekki sjá virkjunina. Mikill kostnaður við að flytja rafmagnið frá virkjuninni inn á landsnetið stendur í mörgum. Eyðilegging fallegra fossa á óbyggðu svæðinu á Ströndum hefur skapað mikla andúð hjá almenningi. Kærur og málshöfðanir vegna alls þessa tefja framkvæmdir. Til dæmis tókst ekki að klára undirbúning rannsóknavinnu sem á að hefjast næsta sumar.

  Þetta er í algjörri andstöðu við það sem kalla mætti áhættulitla fjárfestingu og því skyldi engan undra að hinir sómakæru partnerar hjá Ancala vilji hugsa sinn gang. Nú þegar er búið að verja miklum fjármunum til að undirbúa Hvalárvirkjun. Spurningin er hvort henda eigi góðum peningum á eftir vondum í fullkominni óvissu um hvort yfirleitt takist að reisa virkjunina eða hvort hún verði nokkru sinni arðbær.

  Lítið hefur heyrst af því hvað hinir íslensku helmingseigendur í HS Orku eru að hugsa í þessum efnum. Það er samlagsfélagið Jarðvarmi, sem er í eigu 14 lífeyrissjóða. Þó er ljóst að stjórnarmenn Jarðvarma sitja ekki auðum höndum. Fyrir nokkrum vikum var Ásgeiri Margeirssyni forstjóra HS Orku sagt upp störfum en beðinn um að sitja áfram þar til búið væri að finna nýjan forstjóra. Þeirri leit er ekki lokið, en í byrjun október var Ásgeiri sagt að pakka saman og yfirgefa svæðið og Finnur Beck lögfræðingur HS Orku settur tímabundið í starfið.

  Auglýsing