ALLT FTIR KL. 5

  í nýlegu podkasti Snorra Björns er viðtal við Helga í Góu sem er bæði góður og skemmtilegur náungi. Það vita flestirir að hann hefur heldur betur haslað sér völl í viðskiptum bæði í sælgætinu og skyndibitanum KFC.

  Ég man eftir fyrsta Kentucky staðnum sem var inn af Skallasjoppunni sem stóð við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, opnaði í kring um 1979. Þar voru 5 borð. Núna eru staðirnir orðnir ég veit ekki hvað margir. Ekki 5 borð hver, mörg borð og bílalúga sem mokar út mat. Helgi er liklega farsælasti íslenski veitingamaður allra tíma. Ég elska súkkulaðirúsínurnar frá Góu.

  Þegar við opnuðum Tomma hamborgara á Grensásveg 7 (1981) þá bjuggum við Helga á skrifstofunni fyrstu 8 mánuðina það var unnið frá morgni til kvölds. Ég sagði stundum að munurinn á vinnudegi og frídegi væri að á frídegi væri ég í sparifötunum í vinnunni. Alla vega þá pöntuðum við okkur oft Kentucky Fried með hrásalati frönskum og brúnni sósu.

  Jæja, í viðtalinu við Snorra Björns þá segir Helgi okkur hreinskilningslega að hann þakki velgengni sína því að hann vann og vinnur enn alltaf langt fram eftir degi. Og mestum árangri þakkar hann það að hann vann þangað til langt eftir kl. 5. Þegar aðrir hættu þá hélt hann áfram.

  Við Helgi höfum stundum spjallað saman, hann kom oft á Hard Rock í Kringlunni. Við erum kollegar í veitingageiranum. Hann er varkár meðan ég er glanni. Hann sagði við mig einu sinni: “Tommi, ég passa uppá það að skulda aldrei meira en sem nemur veltu eins mánaðar.” Og þá svaraði ég: “Þetta er svona svipað hjá mér nema ég reyni að skulda aldrei meira en sem nemur veltu eins árs.”

  Núna er mikið kappsmál að stytta vinnuvikuna. Þá gefst meiri timi fyrir fjölskylduna, áhugamál, tómstundir og hvíld. Fólk kulnar síður í starfi og líður betur. Svo eru þeir sem eru í starfi sem þeir elska þá er ekki spáð í hvað klukkan er eða hvað vinnudagurinn er langur . Þá er kappsmálið að finna leiðir, leysa verkefnið, klára verkið, klukkan skiptir ekki máli.

  En það er ekki hægt að eiga kökuna og borða hana líka. Það er ekki allra að vinna myrkrana á milli en þeir sem eru til í slaginn eiga séns á að njóta veraldlegu velgengninnar ef það er takmarkið.

  Hver og einn verður að velja hvað hann vill.

  TOMMI SEGIR

  Pistill no.14 – Smellið!

  Pistill no.13 – Smellið!

  Pistill no.12 – Smellið!

  Pistill no.11 – Smellið!

  Pistill no.10 – Smellið!

  Pistill no.9 – Smellið!

  Pistill no.8 – Smellið!

  Pistill no.7 – Smellið!

  Pistill no.6 – Smellið!

  Pistill no.5 – Smellið!

  Pistill no.4 – Smellið!

  Pistill no.3 – Smellið!

  Pistill no.2 – Smellið!

  Pistill no.1 – Smellið!

  Auglýsing