ALBERT DÓ – ÞAÐ HEFÐI MÁTT BJARGA HONUM

  “Hér á myndinni er vinur minn Albert. Hann lést aðeins 27 ára gamall vegna ofneyslu vímuefna. Það hefði ekki verið of seint til að bjarga honum – og mörgum öðrum,” segir Unnar Þór Sæmundsson Pírati og heldur áfram:

  Unnar Þór

  “Nú hef ég notað megnið af deginum (í gær) til þess að hringja í þingfólk og fá að ræða aðeins við það um fyrirhugaða atkvæðagreiðslu á Alþingi á mánudaginn sem snýr að afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna. Þessi stefna í vímuefnamálum hefur öllu jafna verið kölluð portúgalska leiðin.

  Portúgal var fyrsta landið í Evrópu til þess að afglæpavæða neysluskammta árið 2001. Með ótrúlegum árangri hefur samfélagslegur vandi tengdur fíkn fallið um allt að 50%. Þrátt fyrir að sérfræðingar hafi fyrirfram spáð aukningu í neyslu ákveðina efna þá hefur neysla allra efna staðið í stað.

  Þegar ég byrjaði símtölin í dag var ég vongóður og trúði því innilega að þingmenn meirihlutans myndu leggja pólitíkina til hliðar og gera það sem rétt er. En þegar leið á fór ég að taka eftir mynstri, svörin voru öll á sömu leiða ð þetta væri ekki tímabært, athugasemdir við framsetningu málsins og flutningsfólk. Þrátt fyrir fullan stuðning við málið sem slíkt í grunninn þá er það orðið pólitísk skiptimynt. Það gerir mig óendanlega sorgmæddan… því ég veit frá fyrstu hendi hvernig vímuefni geta heltekið líf og lagt allt í rúst, ég þekki það líka hvernig núverandi löggjöf viðheldur ástandinu og dregur okkur til baka þegar vel gengur, gerir fíklum þannig erfiðara að skilja við neysluheiminn.

  Það virkar nefnilega þannig að núverandi fyrirkomulag býr til glæpamenn úr veiku fólki, að vera tekinn ungur með vímuefni getur þýtt að lífið eins og fólk þekkir það sé búið. Þú færð ekki vinnu, þú færð ekki læknishjálp við hæfi, þú ert útskúfaður og eltur. Þú færð ekki séns.

  Hvers vegna þykir okkur í lagi að eltast við og refsa einum hóp af veiku fólki en ekki öðrum? 40 ár af refsingum hafa ekki fært okkur öruggara samfélag heldur þvert á móti aukið á vandann. Það er kominn tími til að við tökum aðra stefnu og tækifærið til þess er núna.

  Ég er fíkill í bata, ég á vini sem eru fíklar bæði í bata og ekki í bata og ég átti vini sem voru fíklar en eru farnir. Einn fíkill er miklu meira en bara fíkillinn sjálfur. Fíkillinn er barn einhvers, systkin, fjölskylda. Fíklar eru foreldrar og makar. Fíkill ætti ekki að þurfa að tengja við aðra, til að vera metin sem manneskja, hver sem er getur verið fíkill og það er enginn stikkfrí. Við eigum met í dauða tengdum ofskömmtun á Norðurlöndum og afglæpavæðing er eitthvað sem kæmi til með að færa okkur nær engum dauðsföllum.

  Afglæpavæðing hefur margsannað sig í þeim löndum sem hafa haft hjarta og þor til að innleiða þessa leið. Stríð gegn vímuefnum er í grunninn stríð gegn fólki, veiku fólki. Það er ekki stjórnmálafólkið sem stýrir ferðinni, sem er að deyja eða hagsmunaaðilarnir sem efast né eru það heilbrigðir einstaklingar sem týna lífinu í baráttunni við Bakkus. Ég óska þess heitast að stjórnmálafólk geti hlustað á ósýnilega hópinn sem þekkir þetta… og veit hvers konar lífsbjörg þessi lagabreyting gæti orðið og segi JÁ. Ef það getur ekki hugsað sér að leggja pólitíkina til hliðar þá biðla ég til þeirra frá innstu hjartarótum að standa ekki í vegi fyrir lífsbjörg og sitja hjá í atkvæðagreiðslunni á Alþingi í dag.

  Til allra þeirra sem lesa þetta – ég biðla til ykkar að ef þið þekkið einhvern í stjórnmálum eða þekkið afleiðingar úreltrar stefnu í vímuefnamálum á einhvern hátt að láta í ykkur heyra. Í lokin langar mig að segja aftur: Við getum ekki beðið, við erum að deyja. (Myndirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi móður Alberts)”.

  Auglýsing