ÁHRIF AÐ AUSTAN

Jón Guðmundsson, þekktur þverlautuleikari, opnar myndlistarsýningu í galleríinu í Háteigskirkju á laugardaginn. Áhrif að austan heitir sýningin og um hana segir listamaðurinn:

„Haustið 1988 tókum við hjónin þá ákvörðun að taka okkur upp frá Reykjavík og flytja austur á Hallormsstað. Ég hafði ekkert kynnst landsbyggðinni og varla farið út fyrir höfuðborgina nema í stuttar sumarferðir. Austur á Hérað hafði ég tvisvar komið. Flogið í bæði skiptin og einungis stoppað yfir nótt. Þessi dvöl varð lengri en okkur gat grunað því á Hallormsstað bjuggum við í sextán ár. Til að gera langa sögu stutta þá var þessi ákvörðun sennilega sú gáfulegasta sem við höfum tekið. Börnin okkar þrjú ólust upp í Hallormsstaðaskógi og við hjónin kynntumst fljótlega fólki sem reyndist okkur afar vel enn í dag og teljast til okkar bestu vina.

Fyrir austan fékk ég andann yfir mig og prófaði ýmislegt sem ég hefði sennilega aldrei látið mér detta í hug í höfuðborginni. Ég steig m.a. leiksvið í Valaskjálf á Egilsstöðum, söng í kirkjukór Vallaneskirkju, skrifaði leikrit og sögur, hélt ljósmyndasýningu á Skriðuklaustri, hóf að spila aftur á flautu,koma víða fram, asnaðist til að prófa að mála myndir og kynntist sveitalífi í fyrsta skipti.

Þessar myndir sem ég sýni hér eru allar undir áhrifum frá árum mínum á Hallormsstað. Nýjustu myndirnar, af útsæðinu urðu til er vinir mínir Eymundur og Eygló bændur í Vallanesi héldu jarðeplahátíð í október síðastliðnum. Þar var m.a. reynt að sýna ýmis litbrigði kartaflna. Ég hef einnig farið í Vallanes á vorin til að hjálpa Eymundi að setja upp útsæði. Ljósmyndirnar eru úr Vallaneskirkju en “gömlu” myndirnar gerði ég á Hallormsstað. Sýningin er tileinkuð Fljótsdalshéraði sérstaklega Hallormsstað og Vallanesi.“

Auglýsing