AFMÆLISKVEÐJA TIL FÖÐUR

  Vilhjálmur Einarsson og eiginkona hans, Gerður Unndórsdóttir.

  “Pabbi er 85 ára í dag. Opinberlega er hann Silfurmaðurinn frá Melbourne 1956, þar sem hann fékk silfurverðlaun á Olympíuleikunum það ár. Hefur það afrek fylgt mér frá fæðingu og rifjað upp árlega við veitingu Íþróttamanns ársins. Ég er svo sannarlega stoltur af því afreki föður míns,” segir athafnamaðurinn og fjölmiðlastjarnan Simmi Vill í afmæliskveðju til föður síns.

  Sigurstökkið, þrístökk í Melbourne.

  “Aldrei hefur þetta afrek stigið honum til höfuðs og hefur hann ávallt nýtt hvert tækifæri til þess að gefa þeim árangri djúpa og innihaldsríka merkingu. Undirbúningurinn, aðstöðuleysið og vantrúin á að eitthvað kæmi úr þessari ferð var eins og eldsneyti á að standa sig vel. Aðstöðuleysið var að mati föður míns kostir í undirbúningnum og vantrúin var frelsið til að gera sitt besta.

  En stoltastur er ég af honum sem manneskju. Ég ólst upp hjá Skólameistaranum Vilhjálmi en ekki íþróttahetjunni. Afrek hans var eins og Íslendingasögurnar fyrir ungan dreng sem kom löngu seinna í heiminn.

  Pabbi minn hefur aldrei misst tækifæri til þess kenna manni eitthvað nýtt, opna hugan gagnvart nýjum sjónarhornum eða segja sögur. Það er aldrei þögn í bíltúrum eða yfir kaffibollanum, það er alltaf eitthvað áhugavert að gerast í heiminum sem krefst umhugsunar og umræðu.

  Það líður ekki sú vika án þess að fólk kemur upp að mér að fyrrabragði og sér ástæðu til þess að skila kveðju til þín og deila með mér upplifun sinni af kynnum sínum af þér. Oftast eru það fyrrverandi nemendur sem vilja meina að þeir eigi þér mikið að þakka að þeir gengu og kláruðu menntabrautina.

  Það gerir mig stoltan í hvert sinn, stoltari en þegar afrek þín á Íþróttasviðinu eru rifjuð upp, án þess að lítið sé gert úr því. Enda sýnir þessi vitnisburður hvað þú hefur gefið mikið af þér allt þitt líf, ekki bara til okkar sonanna, heldur heilu kynslóðunum af nemendum þínum.

  Ég er þakklátur fyrir það að geta haldið uppá afmælið í dag með pabba, mömmu og fjölskyldunni, enda skall hurð nærri hælum í nóvember sem hefði hæglega geta breytt heimsókn minni í dag í kirkjugarðinn en ekki kaffiboð.

  Kjörorð þín og okkar saman eru:
  Þagmælska, Varúð, Hófsemi og Miskunnsemi.
  Það mun aldrei breytast.
  Elsku Pabbi, til hamingju með daginn.

  Auglýsing