ABBEY ROAD 50 ÁRA

  Þessi ljósmynd er 50 ára í dag. Tekin 6. ágúst 1969.

  Upprunalega átti platan að heita Himalaya. Hugmynd Pauls, sem Georg studdi. John neitaði að fara þangað.

  Let It Be tónleikarnir á þakinu, fyrr á árinu áttu að fara fram á skemmtiferðaskipi, með Bítlana sem danshljómsveit. Hugmynd Pauls, sem Ringo studdi. John neitaði. Því var bara farið upp á þak. Og – nú var bara labbað yfir götuna. Letin í Lennon segir allt um dvínandi áhuga hans.

  Myndatakan hófst kl 11:35. Löggan lokaði gatnamótunum og gaf þeim 10 mínútur. Ljósmyndarinn stillti upp áltröppum, stóð í þeim og tók 6 myndir.

  Á myndum 1, 3, 4 og 5 gengu þeir frá vinstri til hægri. Á mynd 2 og 6, frá hægri til vinstri. Eftir fjórar myndir var tekin smá pása. Þá fór Paul úr skónum og kveikti sér í sígarettu. Mynd nr 5 var notuð.

  Þeir höfðu beðið um að Volkswagen bjallan yrði fjarlægð, en Scotland Yard var búin að fá nóg af þessum poppurum og neitaði.

  Hjónin sem áttu bílinn urðu að selja hann innan árs, því númerinu var alltaf stolið af honum .

  Karlinn sem stendur hægra megin, af algerri tilviljun og horfir álengdar, var bandarískur sölumaður á eftirlaunum, Paul Cole að nafni. Hann þurfti að mæta í fjölmiðlaviðtöl það sem eftir lifði.

  Hönnuðurinn Kosh hannaði albúmið. Það var hans hugmynd að hafa hvorki nafn hljómsveitarinnar, né plötunnar, framaná. Sem var alger nýlunda. EMI hafði áhyggjur, en hann sagði: “Þeir eru langfrægasta hljómsveit heimsins og það er óþarfi. Allir vita hverjir þetta eru.”

  Ein saga, óstaðfest : Á skrifstofu Brian Epstein, eftir dauða hans ´67, voru ógrynni alls kyns tilboða, frá stofnunum og fyrirtækjum, þar sem Bítlunum voru boðnar háar fjárhæðir fyrir að gera þetta og hitt. Þá voru gangbrautarljós nýkomin um allt Bretland. Umferðaráð vildi fá Bítlana til að ganga yfir gangbraut og sýna “ungdóminum” hvernig ætti að gera slíkt. Ekki hlaupa – ekki hangsa – og svo frv.

  Sagan segir að Paul hafi dregið þetta document fram og aflað þeim þannig óvæntra milljóna í vasann. Enda ganga þeir eins og “græni karlinn”.

  Man ekki meir – í bili.

  Sigfús Arnþórsson

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinSAGT ER…
  Næsta greinJÓN ÓLAFSSON (65)