300 BÖRN Á BIÐLISTA Í FIMLEIKA

  Fimleikafélagið Björk hefur ritað bæjarstjóra Hafnarfjarðar bréf þar sem þess er krafist að  leyst verði úr húsnæðisvanda félagsins hið snarasta:

  “Mikill vöxtur  hefur verið hjá félaginu síðustu ár. Sérstaklega hefur iðkendum á aldrinum 2ja – 12 ára fjölgað og er félagið í dag með flesta iðkendur á þessum aldri samanborið við önnur félög í Hafnarfirði.

  Nú er svo komið að um 300 börn eru á biðlista hjá Fimleikafélaginu Björk og hefur félagið ekki aðstöðu til að taka á móti öllum þeim fjölda barna sem vilja æfa hjá félaginu. Til að mæta bráðavanda félagsins varðandi aðstöðu þá óskar félagið eftir því að fá mannvirki að Haukahrauni 1 til fullra afnota en í dag deilir félagið húsnæði með Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar (DÍH). Það að Fimleikafélagið Björk fái mannvirki að Haukahrauni 1 til fullra afnota gerir félaginu kleift að fækka á biðlista, hagræði myndi skapast við skipulagningu á starfi félagsins m.a. með því að geta haft Andrasal uppsettan með dýnum og áhöldum allt árið um kring auk þess sem iðkendur hjá félaginu myndu dreifast betur um húsnæðið.

  Félagið vill einnig minna á að ekki er búið að klára það verkefni að skipta út lendingardýnum í aðalsal að Haukahrauni 1. Búið er að skipta út dýnum að 2/3 hluta í salnum og er það öryggismál að klárað verið að skipta út lendingardýnum en endingartími á eldri dýnum er löngu útrunninn.

  Í dag stenst aðalsalur að Haukahrauni ekki kröfur Fimleikasambands Íslands (FSÍ) varðandi mótahald og hefur salurinn samkvæmt reglum FSÍ verið færður úr flokki A í flokk B, en salurinn er ekki nógu stór svo hægt sé að hafa löglegar atrenur fyrir tiltekin áhöld. Í gegnum árin hefur félagið haft nokkrar tekjur af mótahaldi sem munu dragast saman vegna þessa en mikilvægt er fyrir félagið að geta haldið í alla tekjustrauma“.

  Auglýsing