BARA SVO AÐ ÉG SKILJI…

  “Bara svo að ég skilji,” segir Tómas Andrés Tómasson veitingamaður á Hamborgarabúllunni, Tommi á Búllunni, og heldur áfram:

  “Á Alþingi eru starfandi 63 þingmenn þar á meðal 10 ráðherrar með allt að 20 aðstoðarmenn og fullt af fólki sem tengist þinginu og stjórn ráðuneytanna. Í dag er þetta fólk allt á fullum launum, sem teljast ansi góð jafnvel talin ofurlaun.

  Þar sem Alþingi er ekki að vinna á fullum afsköstum væri þá ekki eðlilegt að laun þessa fólks væru lækkuð í hutfalli við vinnuframlag og þessir einstaklingar myndu fá greitt samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar um greiðslur atvinnuleysisbóta? Þá myndi hver og einn taka þátt i þessari krísu sem þjóðin er að ganga í gegnum og taka á sig launalækkun. Það myndi undirstrika það að við eru öll saman í þessu.

  Væri það ekki þægilegri tilfinning að finna að þeir sem eru að taka ákvarðanir séu tilbúnir að axla byrðarnar til jafns við aðra en séu ekki stikkfrí frá fjárhagslegum áhyggjum því ríkið borgar bara?

  Að sama skapi væri þá ekki eðlilegt að ákvörðun yrði tekin um að það fólk sem stendur núna í víglínunni, heilbrigðisstarfssfólk og þeir fjölmörgu aðrir sem standa vaktina og eru tilbúir að taka áhættu með heilsu sína og velferð fjölskyldu sinnar til að halda uppi starfhæfu heilbrigðiskerfi og tryggja okkur nú sem fyrr bestu mögulegu umönnun komi til þess að við þyrftum á aðhlynningu þeirra að halda, fái álagsgreiðslur sem væru í samræmi við það margfalda álag sem þessar aðstæður skapa þeim? Bara svo að ég skilji.”

  Auglýsing